Umsóknarfrestur um meðferð barna hjá ART teyminu á Suðurlandi rennur út 15. maí nk. fyrir haustönn 2009. Meðfylgjandi eru upplýsingar til viðmiðunar.

ART-teymi

Hvaða þjónustu erum við að veita?

Hverjir geta sótt um hjá okkur?

Heimili, skóli og félagsþjónusta geta sótt um fyrir börn með hegðunar- og tilfinningaraskanir. Forráðamenn þurfa alltaf að samþykkja umsókn.  Inntökuráð tekur við  umsóknum og fjallar um  þær. Í inntökuráði eru barnalæknir, sálfræðingur heilsugæslu, framkvæmdastjóri skólaskrifstofu og verkefnisstjóri ART-teymis.

Hvað felst í meðferð?

Sett er upp einstaklingsmiðað meðferðarúrræði og það kynnt fyrir þeim sem að barninu koma. 

Meðferðin getur falist í samtölum við barnið í skólanum sem teymið sér um.  Í samtölunum er farið í þætti ART-þjálfunar, svo sem sjálfsstjórn, félagsfærni og siðfræði.  Einn þáttur í meðferðinni getur verið að barnið hljóti ART-þjálfun í skólanum ásamt öðrum börnum. Þannig verður kennsla í sjálfsstjórnun í höndum skóla og teymis. 

Þegar kemur að félagsfærniþættinum er það skólinn og heimilið sem sjá um þjálfunina og yfirfærslu undir handleiðslu teymisins.  Teymið hjálpar barninu við að finna lausnir á vandamálum sem varða félagsleg samskipti.  Í því felst m.a. leiðrétting á hugsanavillum, neikvæðum hugsunum gagnvart sjálfum sér og öðrum, breytingu á lífsvenjum, svefni, matarvenjum, hreyfingu og áhugamálum.  Vinnan krefst samvinnu milli teymis, skóla og heimilis.

Til að ná fram þessum breytingum og yfirfærslu er mikilvægt að fjölskyldan taki þátt í fjölskyldu-ARTi, en auk teymisins kemur félagsþjónustan að þeim þætti þar sem þörf er á.

Markmið meðferðar?

Meðferðin miðar að því að barnið fái þá hjálp sem þarf til að bæta líðan og hegðun.  Í þessu felst að allir sem koma að barninu taki þátt í þeim breytingum sem verða með sameiginlegu átaki.

Kostnaður skólans

Hjóti umsókn jákvæða afgreiðslu inntökuráðs er aðkoma teymisins að málinu skólanum að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar veita sálfræðingar Skólaskrifstofu Suðurlands og starfsmenn ART-teymisins.

ART-teymið

Skólaskrifstofa Suðurlands

Leave a Comment

Scroll to Top