Föstudaginn 15. apríl síðastliðinn var boðið til samtals í Víkurskóla. Um var að ræða viðburð undir yfirskriftinni ,,Að TALA er málið“ og stóð hann yfir í um klukkustund. Kolbrún Hjörleifsdóttir kennari í grunnskólanum í Vík stóð fyrir viðburðinum og kynnti hugmyndina fyrir viðstöddum. Í verkefninu er orðið TALA miðpunkturinn. Orðið TALA getur haft þrennskonar merkingu og gefur það möguleika á að vinna með orðið á skemmtilegan hátt og vekja um leið athygli á mikilvægi þess að við tölum saman og eigum góð samskipti.
ART-teyminu var boðið á viðburðinn og hélt Kolbrún Sigþórsdóttir smá tölu fyrir viðstadda og ræddi efni dagsins út frá ART-inu. Til dæmis mikilvægi þess að vanda sig þegar maður TALAr við aðra og mikilvægi þess að hlusta þegar að aðrir TALA.
Að lokum var unnið í litlum hópum og skrifaðar niður setningar af ýmsum toga sem innihéldu orðið TALA. Á meðan að hópavinnan fór fram var fólk kvatt til þess að TALA saman.