Kynning á ART

ART stendur fyrir Aggression Replacement Training og er fastmótað uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Módelið er byggt á ýmsum stefnum og straumum úr sálfræði til dæmis atferlismótun. ART var þróað í Bandaríkjunum af Arnold P. Goldstein, Barry Glick og John C. Gibbs.

Í ART er unnið með félagsfærni, sjálfsstjórn og siðferðisvitund þátttakenda. Með því að vinna með þessa þrjá þætti samhliða næst betri og varanlegri árangur heldur en ef aðeins væri unnið með einn þátt í einu. Þessir þættir eru meðal annars þjálfaðir með sýnikennslu, hlutverkaleik, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum.


 

 

ART Teymið á Suðurlandi
ART teymið hefur verið starfandi á suðurlandi frá árinu 2007. Hjá teyminu starfa þrír starfsmenn með umfangsmikla þekkingu og reynslu af meðferðarmálum. Starfsmenn teymisins sjá um fjölskylduART, halda námskeið og veita ráðgjöf og handleiðslu til skóla, félagsþjónustu og foreldra.
Starfsemi teymisins skiptist í tvo hluta sem styðja við hvorn annan. Annars vegar er það meðferðarstarfið og hins vegar forvarnarstarf sem fer fram í skólum.

Starfsmenn teymisins eru:

Katrín Þrastardóttir verkefnastjóri er Fjölskyldu ART ráðgjafi, ART þjálfi, með BSc í sálfræði.
katrin@isart.is – 860-0428

Guðrún Herborg Hergeirsdóttir er ART þjálfi, og iðjuþjálfi.
gudrun@isart.is – 860-0426

Álfheiður Ingólfsdóttir er ART þjálfi og grunnskólakennari.
alfheidur@isart.is – 860-0427

 

Fjölskyldu ART
Hægt er að sækja um meðferð hjá ART teymi fyrir börn með hegðunar-, tilfinninga- eða geðraskanir. Umsóknir eru teknar fyrir af inntökuráði í maí og í desember. Meðferðin er kölluð Fjölskyldu ART og fara af stað nýir hópar í janúar og september ár hvert.
Í Fjölskyldu ART gefst foreldrum tækifæri á að verða ART þjálfarar barna sinna. Um er að ræða 12 skipta námskeið, sem nær yfir tvær annir, þar sem fjölskyldan hittir teymið tíu sinnum á fyrri önninni og tvisvar sinnum á seinni önninni. Foreldrum eru kenndar leiðir til þess að ná jákvæðum aga og eiga árangursrík og góð samskipti á heimilinu. Á þessum tíma veitir teymið einnig persónulega ráðgjöf og einstaklingsþjálfun fyrir börn sé þess óskað.

ART þjálfun á vettvangi
Forvarnarstarf teymisins felst í því að halda námskeið fyrir starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, heilbrigðisþjónustu, skólaþjónustu og félagsþjónustu og önnur kerfi. Á slíkum námskeiðum öðlast þátttakendur færni til þess að nota ART módelið með nemendum sínum og/eða skjólstæðingum. Þátttakendur sækja fyrst þriggja daga námskeið hjá teyminu. Að því búnu setja þeir af stað 12 vikna ART prógramm á sinni starfsstöð. Teymið veitir handleiðslu og ráðgjöf á þessu tímabili og heimsækir þátttakendur. Þegar þátttakendur hafa lokið við 12 vikur í ART og skilað tilskildum gögnum til teymisins ljúka þeir námskeiðinu með réttindum til að starfa sem ART þjálfar.
Eins og áður segir byggir ART á vinnu með félagsfærni, sjálfsstjórn og siðferðisvitund. Á tímabilinu skal ART kennt þrisvar sinnum í viku, einn tími fyrir hvern lið. Að 12 vikum loknum er æskilegt að haldið sé áfram með ART þjálfun vikulega.

Smeltu HÉR til að sækja kynningarskjal um starfsemi ART teymisins. 

 

Annað kynningarefni:

ART og aðal námskrá grunnskóla

Glærukynning