ART teymið á Suðurlandi fór á ráðstefnuna „International Social Competence Meet Up“ í Denver Colorado í síðustu viku. Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá og margir áhugaverðir fyrirlestrar. Einnig voru haldnir fundir á vegum PREPSEC International annars vegar hjá stjórn PREPSEC en þar er Sigríður Þorsteinsdóttir einn stjórnarmanna og hins vegar í gæðanefnd PREPSEC en þar situr Kristín Hreinsdóttir. Töluverð áhersla er nú lögð á hvernig tryggja skuli gæði ART þjálfunar á heimsvísu. Gæðanefnd PREPSEC vinnur nú að lágmarksviðmiðum sem snúa að þjálfun og endurmenntun ART þjálfara og hvernig fylgja megi námskeiðinu eftir til að tryggja færni þjálfara til lengri tíma. Rannsóknir sýna að þjálfurum hættir til að víkja frá skipulagi ART þjálfunar, eins og hún er sett fram í handbókum, þegar á líður. Við það minnkar árangur ART þjálfunar verulega og því brýnt að sjá til þess að þjálfurum bjóðist regluleg eftirfylgd og handleiðsla og þeir nýti sér hana.
Í lok ráðstefnunnar var haldinn fundur með öllum fulltrúum í PREPSEC og var þar farið yfir stöðu ART þjálfunar á heimsvísu.
Íslenski ART hópurinn var ánægður með ferðina og kom heim með nýjar upplýsingar um áhugaverðar rannsóknir og önnur athyglisverð ART verkefni.