Samantekt frá rannsóknaraðila:
Reiðistjórnunarmeðferðarúrræðið ART hefur verið metið og sýna niðurstöður að það skilar tilætluðum árangri. Þessu úrræði er ætlað að draga úr vanda barna sem eiga erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu með það að markmiði að draga úr líkum á frekari vanda þeirra í framtíðinni. ART úrræðið er einkum ætlað börnum og unglingum á grunnskólaaldri sem eiga við hegðunarvanda að stríða. Úrræðinu hefur verið beitt á Íslandi frá árinu 2006. Úrræðinu er beitt víða erlendis og hafa rannsóknir þar einnig stutt það að ART reiðistjórnunarúrræðið hafi bætt hegðun og líðan nemenda.
Hegðun og líðan barna ásamt félagsfærni var mæld fyrir og eftir ART meðferð. Góður árangur er af meðferðarúrræðinu ART samkvæmt fyrir- og eftir mælingum á hegðun barnanna samkvæmt mati þeirra sjálfra, foreldra og kennara. Líðan þeirra breyttist einnig til hins betra samkvæmt mati foreldra og kennara, en samræmi í því mati var ekki eins mikið og er varðar hegðun þeirra. Að mati kennara varð einnig framför á félagsfærni barnanna. Kennarar og annað fagfólk sem lokið hafði námskeiði í ART var spurt hvort það hefði notað úrræðið í starfi, t.d. inni í bekk. Stór hluti kennara og annars fagfólks sem lokið hefur námskeiði í ART taldi það nýtast sér í starfi inni í bekk og taldi auðvelt að nýta sér það. Kennarar sem nýta sér úrræðið töldu það draga úr hegðunarvandkvæðum, auka sjálfstraust barna og bæta félagshæfni þeirra. Svarhlutfall var lægra en æskilegt hefði verið, eða einungis um fjórðungur þeirra sem höfðu lokið ART námskeiði sem töldu þó rúmlega hundrað manns. Upplifanir kennara af langtímaárangri úrræðisins voru einnig skoðaðar. Langtímaárangur þess er góður í flestum tilfellum að mati kennara, en þess má geta að fáir kennarar svöruðu þessum hluta rannsóknarinnar. Með því að draga úr vanda barna sem eiga erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu og hegðun er hægt að draga úr líkum á frekari vanda þeirra í framtíðinni.