Fjölskyldu ART
Hægt er að sækja um meðferð hjá ART teymi fyrir börn með hegðunar- og/eða tilfinningavanda. Umsóknir eru teknar fyrir af inntökuráði í maí og í desember. Meðferðin er kölluð Fjölskyldu ART og fara nýir hópar af stað í janúar og september ár hvert.
ART stendur fyrir Aggression Replacement Training og er fastmótað uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Í Fjölskyldu ART þjálfast fjölskyldan í félgsfærni og sjálfsstjórn, það er meðal annars gert með sýnikennslu, hlutverkaleik, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum.
Í Fjölskyldu ART gefst foreldrum tækifæri á að verða ART þjálfarar barna sinna. Um er að ræða 12 skipta námskeið, sem nær yfir tvær annir, þar sem fjölskyldan hittir teymið tíu sinnum á fyrri önninni og tvisvar sinnum á seinni önninni. Foreldrum eru kenndar leiðir til þess að ná jákvæðum aga og eiga árangursrík og góð samskipti á heimilinu. Á þessum tíma veitir teymið einnig persónulega ráðgjöf og einstaklingsþjálfun fyrir börn sé þess óskað.
Í Fjölskyldu ART er lögð áhersla á auðmýkt, virðingu, einfaldleika, gleði, jákvæðni og jafningafræðslu.