Vel mætt á málþing IS-ART félagasamtakanna.

Fyrsta málþing IS-ART félagasamtakanna fór fram 18. september síðastliðinn, herlegheitin fóru fram í Listasafni Árnesþings. Ríflega 70 gestir mættu á þingið og voru þeir frá öllum landsfjórðungum. Sem dæmi voru tveir af fjórum fyrirlesurum málþingsins frá Norður og Austurlandi. Kolbrún Sigþórsdóttir starfsmaður ART-teymisins og formaður IS-ART félagasamtakanna opnaði málþingið og Kristín Hreinsdóttir skólastjóri Bláskógaskóla og fyrrverandi verkefnastjóri ART-teymisins var málþingsstjóri.

Í fyrsta erindinu talaði Sigrún Björk Benediktsdóttir skólastjóri leikskólans á Laugalandi um ART þjálfun á leikskólastigi. Leikskólinn á Laugalandi er ART vottaður skóli síðan 2014 og eru allir starfsmenn leikskólans búnir að sækja ART námskeið. ART þjálfun hefur fari fram í leikskólanum frá því árið 2008 og hlotist hefur góður árangur af því starfi. Leikskólabörnunum finnst gaman í ART, foreldrar barnanna hafa sagt að þeir finni mun á börnunum og starfsfólkið er afar ánægt með ART þjálfunina. Sigrún sýndi mjög áhugavert myndband þar sem börnin á leikskólanum tjáðu sig um hvað þau höfðu lært í ART. Ánægjulegt var einnig að heyra að starfsfólk leikskólans sá ekki aðeins mun á börnunum heldur fannst því líka að ART þjálfunin hefði góð áhrif á starfsfólkið og andann á vinnustaðnum.

Í öðru erindinu sagði Ingveldur Eiríksdóttir skólastjóri grunnskólans á Þórshöfn frá ART-þjálfun á grunnskólastigi. Ingveldur bar teyminu vel kveðjuna í erindi sínu er hún útskýrði hvernig ART-þjálfun hafi hjálpað til við að umbreyta skólabragnum í grunnskólanum á Þórshöfn. Taldi Ingveldur að ART þjálfunin hafi skilað betri samskiptum milli nemendanna sjálfra og milli nemenda og kennara. Hún sá smátt og smátt hvernig nemendur fóru að verða skilningsríkari, umburðarlyndari og þau fóru að geta tjáð sig meira um líðan og tilfinningar. Einnig fann hún hvernig traust og ábyrgð jókst hjá nemendunum. Foreldrasamfélagið breyttist einnig á jákvæðan hátt gagnvart skólanum.

Í þriðja erindinu sagði Elvar Jónsson skólameistari Verkmenntaskólans á Austurlandi frá ART-þjálfun á framhaldskólastigi en þar er ART þjálfun sett fram sem valáfangi og hefur verið að gefa mjög góða raun. Upphaflega var ART þjálfunin sett upp í þeim tilgangi að draga úr brottfalli nemenda á fyrstu misserunum. Skemmst er frá því að segja að frá því að boðið var upp á ART í skólanum hefur dregið mjög úr brottfalli nemenda. Elvar vitnaði í nokkra nemendur skólans og gáfu þessar tilvitnanir mjög skýra mynd af því hvernig nemendur voru að nýta sér ART þjálfunina í sínu daglega lífi og hvað hún hefur verið að hjálpa þeim mikið í samskiptum sínum almennt. Elvar vitnaði líka í meistaranámsrannsókn námsráðgjafa skólans sem er í vinnslu og sýna fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar glögglega hvernig ART þjálfunin hjálpar nemendum að fóta sig í lífinu, bætir samskipti þeirra og styrkir sjálfsmynd.

Loka erindi málstefnunnar flutti Bjarni Bjarnason fyrrum verkefnisstjóri ART teymisins. Bjarni sagði frá fyrirkomulagi fjölskyldu-ARTsins í stuttu máli. Nýjustu tölur á árangri eru að sýna að fjölskyldurnar eru að sjá bata hjá börnunum og í raun eru allir í fjölskyldunni að njóta góðs af ART þjálfuninni. Fjölskyldubragurinn verður betri með jákvæðari og agaðri samskiptum inni á heimilinu.

Eftir að allir höfðu svo fengið sér kaffisopa, kökur og ístertu frá Kjörís var haldið áfram með dagskrána og farið í hópumræður. Umfjöllunarefni hópanna var tvíþætt, annars vegar var rætt hvernig hægt væri að tryggja gæði ART þjálfunar og hins vegar hvaða skref væri skynsamlegt að taka í ljósi þess hvernig nýtt fjárlagafrumvarp vegur að vöggu ARTsins á Íslandi – ART-teyminu. Að lokum var farið yfir niðurstöður hópumræðna og hóparnir skiluðu inn umræðupunktum.

Málþ. kaffi 2 Málþ. KS. EJ. BB. Screen Shot Sigrún Screen Shot Ingveldur kakaAð málþinginu loknu var haldinn aðalfundur félagasamtakanna. Kosið var í nýja stjórn, Hilmar Björgvinsson, Ingveldur Eiríksdóttir og Gunnar Þór Gunnarsson komu inn í stjórn í stað Sigríðar Þorsteinsdóttur, Kristínar Hreinsdóttur og Sigrúnar Björk Benediktsdóttur. Breytingar urðu einnig á varastjórn en þar koma Helga Ósk Snædal inn í stað Sigfríðar Sigurgeirsdóttur. Kolbrún Sigþórsdóttir var kosinn formaður áfram. Að lokum var ákveðið að senda ályktun til velferðarráðherra vegna yfirlýsingar í fjárlagafrumvarpi um að leggja niður fjárframlag til ART-teymisins.

Scroll to Top