Umsóknarfrestur fyrir fjölskyldu ART á vorönn 2019

síðasti skiladagur umsókna fyrir fjölskyldu-ART á vorönn 2019 er Föstudaginn 30. nóvember. Umsóknir skulu sendar á ART teymið Austurvegi 56, 800 Selfoss. Umsóknareyðublað má finna á heimasíðu ART teymisins www.isart.is og gátlistar sem þurfa að fylgja með eru einnig á heimasíðunni. Mikilvægt er að ljósrit af nýjustu greiningu/greiningum viðkomandi barns fylgi umsókninni.
 
Fjölskyldu ART-ið er afar hentugt fyrir börn sem til dæmis standa illa félagslega, eiga í erfiðleikum með samskipti við aðra, hafa lágt sjálfsmat, veika sjálfsmynd, eiga erfitt með sjálfstjórn, kunna ekki að setja sér mörk, eru kvíðin eða eru slök í siðferðishugsun.
 
Endilega hafið samband við ART teymið ef einhverjar spurningar koma upp.

Haustverkin eru hafin ! 

ART teymið er komið aftur á fullt skrið eftir sumarfrí ef ,,Sumar“ mætti kalla! Í síðustu viku var fyrsta námskeið vetrarins haldið hér á Selfossi og tókst vel til. Næsta námskeið hér á Selfossi er áætlað dagana 2 – 4 október, skráning á sigridur@isart.is.

Fjölskyldu ARTið fer líka að sigla af stað með tilheyrandi samvinnu við skóla og aðrar stofnanir.

Hlökkum til samstarfsins í vetur en Katrín er á leið í barneignaleyfi fljótlega og verður því lítið með okkur í vetur. 

 

Sigríður, Katrín og Gunnar 🙂 

ART teymið kemur mjög vel út í nýrri rannsókn!

Samantekt frá rannsóknaraðila:

Reiðistjórnunarmeðferðarúrræðið ART hefur verið metið og sýna niðurstöður að það skilar tilætluðum árangri. Þessu úrræði er ætlað að draga úr vanda barna sem eiga erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu með það að markmiði að draga úr líkum á frekari vanda þeirra í framtíðinni. ART úrræðið er einkum ætlað börnum og unglingum á grunnskólaaldri sem eiga við hegðunarvanda að stríða. Úrræðinu hefur verið beitt á Íslandi frá árinu 2006. Úrræðinu er beitt víða erlendis og hafa rannsóknir þar einnig stutt það að ART reiðistjórnunarúrræðið hafi bætt hegðun og líðan nemenda.

Hegðun og líðan barna ásamt félagsfærni var mæld fyrir og eftir ART meðferð. Góður árangur er af meðferðarúrræðinu ART samkvæmt fyrir- og eftir mælingum á hegðun barnanna samkvæmt mati þeirra sjálfra, foreldra og kennara. Líðan þeirra breyttist einnig til hins betra samkvæmt mati foreldra og kennara, en samræmi í því mati var ekki eins mikið og er varðar hegðun þeirra. Að mati kennara varð einnig framför á félagsfærni barnanna. Kennarar og annað fagfólk sem lokið hafði námskeiði í ART var spurt hvort það hefði notað úrræðið í starfi, t.d. inni í bekk. Stór hluti kennara og annars fagfólks sem lokið hefur námskeiði í ART taldi það nýtast sér í starfi inni í bekk og taldi auðvelt að nýta sér það. Kennarar sem nýta sér úrræðið töldu það draga úr hegðunarvandkvæðum, auka sjálfstraust barna og bæta félagshæfni þeirra. Svarhlutfall var lægra en æskilegt hefði verið, eða einungis um fjórðungur þeirra sem höfðu lokið ART námskeiði sem töldu þó rúmlega hundrað manns. Upplifanir kennara af langtímaárangri úrræðisins voru einnig skoðaðar. Langtímaárangur þess er góður í flestum tilfellum að mati kennara, en þess má geta að fáir kennarar svöruðu þessum hluta rannsóknarinnar. Með því að draga úr vanda barna sem eiga erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu og hegðun er hægt að draga úr líkum á frekari vanda þeirra í framtíðinni.

Rannsókn á ART teyminu – Allt skjalið